Um evru

Það sem helst vantar í umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru rök með og á móti aðild Íslands að myntbandalaginu. Hér verður farið yfir helstu rök með upptöku evru.

Upptaka nýs gjaldmiðils hér á landi er að mati margra Íslendinga nauðsynleg og einfaldlega forsenda þess að hægt sé að vinna að stöðugleika og velferð fyrir okkur og börnin okkar.

En hvers vegna að gera evru að gjaldmiðli Íslands?

Fyrir utan að auðvelda ferðalög Íslendinga innan Evrópu, þá er sameiginleg mynt álfunnar skynsamleg bæði út frá efnahagslegu og pólitísku sjónarmiði. Undirstöðuatriði í stjórnun evrusvæðisins er að viðhalda lágum vöxtum og lítilli verðbólgu sem hvetur til frjárfestinga og veitir íbúum þessara landa vissu og öryggi.

Einn gjaldmiðill fyrir einn opin markað var talið rökrétt skref fyrir Evrópu þegar ákvörðun var tekin um sameiginlegan gjaldmiðil árið 1992. Sjö árum síðan varð evra til á rafrænu formi og 1. janúar 2002 fóru seðlar og mynt í dreifingu. Ísland er aðili að þessum markaði í gegn um EES samninginn. Réttasta skrefið í stöðunni væri að ganga inn í Evrópusambandið og taka upp sameiginlega mynt. Þetta er að sjálfsögðu sagt með þeim fyrirvara að aðildarsamningur Íslands að ESB verði viðunandi fyrir okkar þjóð.

Sameiginleg mynt Evrópu eykur gagnsæi í verðlagningu, auðveldar verðsamanburð milli landa, lækkar viðskiptakostnað einstaklinga og fyrirtækja, útrýmir kostnaði við skipti á gjaldeyri og smyr hjól atvinnulífs á svæðinu og um leið á Íslandi ef Íslendingar kjósa að ganga í ESB. Evra er annar stærsti gjaldmiðill í veröldinni og sem hluti af Evrusvæðinu væri Ísland komið í skjól sem hluti af stórri heild í Evrópu. Stærð myntsvæðisins verndar aðildarlöndin fyrir stórum efnahagslegum áföllum, s.s. snöggri hækkun á olíuverði eða sviptingum á gjaldeyrismörkuðum.

Í dag er evra í daglegri notkun á meðal yfir 300 milljón manna. Evrulöndin eru í dag 16 talsins og fjölgar stöðugt, þann 1. janúar næstkomandi bætast vinir okkar frá Eistlandi í þennan hóp og verða þar með 17 fullvalda ríkið sem hefur evru sem sinn gjaldmiðil.

Öll ESB lönd eru skuldbundin til þess að taka upp evru á einhverjum tímapunkti að tveimur undanskildum en það eru Danmörk og Bretland. Danir munu innan fárra ára halda þjóðaratkvæðagreiðslu um upptöku evru. Danmörk er þó í reynd aðili að myntsvæðinu þar sem danska krónan hefur verið fest við evru með 2,25% vikmörkum í mörg ár og verður það áfram. Danir kjósa því að kalla sinn gjaldmiðil krónu en hún hefur þó lítinn sem engan sveigjanleika frá gengi evru. Bretar aftur á móti hyggjast ekki taka upp evru og vilja heldur halda í sterlingspundið.

Réttasta skrefið fyrir Ísland er að taka þátt í verkefninu um evru með nágrönnum okkar í Evrópu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega sammála þessu.

Hef notast við evrur og krónur í 9 ár.  Ég sem einstaklingur get aðeins notast við evrur til að bera saman kostnað á milli ára. 

Evran er ekki að líða undir lok.  

Hún var auðvitað pólitísk ákvörðun og þarf því að verja sig sem slíka gegn góðum hagfræðingum.  

Til lengri tíma litið, þá verður litið á evruna sem góða ákvörðun fyrir Evrópu alveg eins og sameining Þýskalands.  En enginn hagfræðingur gat verið sammála því að sameina ríkin.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband